Súlan í Heimaskagavör

Myndir Árna Böðvarssonar af komu Súlunnar í Steinsvör hljóta að teljast merkilegar fyrir íslenska flugsögu. Sé það rétt að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem flugvél lenti á Skipaskaga þá eru þessar myndir einstök heimild um fyrstu kynni íbúa þjóðar af nýrri tækni sem átti eftir að bylta öllu. Súlan var þýsk vél af gerðinni Junkers F13. Þessi vél kom hingað tvö sumur í röð. Fyrst kom hún sumarið 1928 (29. maí). Það sumar var hún notuð til farþegaflutninga, póstflugs, útsýnisflugs og síldarleitar. Vélinni var flogið af þýskum flugmönnum og viðhald var í höndum þýskra flugvirkja. Þessir störfuðu fyrir þýska flugfélagið Lufthansa. Vélin hélt einnig þýskum einkennisstöfum sínum D-463. Íslenski fáninn var málaður á stél hennar. Síðasta flug hennar sumarið 1929 var 8. september. Eftir það var hún tekin sundur og flutt til Þýskalands. Rekstur Súlunnar þessa sumarmánuði gekk afskaplega vel. Hún flutti 500 farþega, 865 kíló af pósti og flaug 26.000 kílómetra. Það kom því ekki á óvart að íslensk stjórnvöld leigðu tvær vélar af Lufthansa sumarið eftir. Önnur þessara véla var Súlan, sú sama og var hér sumarið 1928. Báðar komu hingað til lands í lok júní 1929. Súlan hafði þó verið endurbætt um veturinn í Þýskalandi. Nýr mótor var settur í hana, legu útblástursröra var breytt og stélið stækkað. Það er einmitt stækkunin á stélinu sem gerir okkur kleift að slá föstu að það var sumarið 1929 sem Árni Böðvarsson og aðrir Skagamenn urðu vitni að því að þessi vél lenti við Akranes og lullaði síðan upp í fjöruna í Steinsvör. Á myndum Árna sést stél vélarinnar greinilega og þetta er stækkaða útgáfan. Súlan fór aftur og nú endanlega úr landi í september 1929. Árni hefur því sennilegast tekið sínar myndir í júlí eða ágúst 1929.

Efnisflokkar
Nr: 4739 Ljósmyndari: Árni Böðvarsson Tímabil: 1930-1949 ofs00016