Myndin er tekin árið 1934 eða 1935, en völlurinn var vígður árið 1935 af séra Sigurjóni Guðjónssyni í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Völlinn þurfti að vinna niður um tvo til þrjá metra, að norðanverðu við brekkuna til þess að fá hann láréttann. Aðalverkfæri voru handskóflur. Á myndinni eru sjálfboðaliðar úr knattspyrnufélögunum K.A. og Kára sem boðaðir höfðu verið með "áskorunarbréfi". Bifreiðina lánaði Þórður Ásmundsson útgerðarmaður, en hún er af gerðinni Ford, módel 1929. 14 af þeim 17 ungu mönnum sem eru á myndinni hafa verið nafngreindir. Eftir því sem næst verður komist eru þeir frá vinstri talið: Hákon Bergmann Benediktsson (1916-1975) frá Skuld, Einar Guðmundur Einarsson Vestmann (1918-1971) með skóflu, Óðinn Geirdal (1907-1993), Gísli Kristinn Bjarnason (1910-1963) á Austurvöllum, Sigurbjörn Jónsson (1907-1987) í Tjörn, Pétur Grétar Steinsson (1919-1988) í Miðengi Fremstur á mynd: Magnús Magnússon (1909-1999) frá Söndum vangasvipur, Jóhannes Júlíus Ásgrímsson (1910-1942) í Dalsmynni (Fögruvöllum), Þórður Valdimarsson (1916-2008), Ólafur Bjarnason (1914-2004) á Borg situr á bílpalli með skóflu uppi, Bjarni Hallfreður Guðmundsson (1916-1999) í Grafarholti situr uppá þaki bílsins. Júlíus Þórðarson (1909-1998) á Grund (1909-1998) á þaki bíls með hendur á lofti. Jóhann Grétar Hinriksson (1922-2006) ungur piltur fyrir framan bíl. Þorsteinn Magnússon (1899-1983) í Reykhólum bifreiðarstjóri.