Magnús Vilhjálmsson (1919-1989) í Efstabæ, Maggi í Efstabæ, eins og hann var alltaf kallaður. Myndin af honum er tekin vorið 1970 þar sem hann situr um boð í báti sínum Sæljóninu og var að gera hann kláran fyrir vertíðina, en báturinn stóð niður við höfn skammt frá bílavoginni. Magnús var einn þekktasti trillukarl á Akranesi á þessum árum. Honum þótti sopinn góður, þótti kjaftfor ef svo bar undir en var einstakt ljúmenni, eins og raunar hann átti kyn til. Það eru til margar skemmtilegar sögur af Magnúsi, sem bæði tengjast hans sjósókn og ekki síður "kennderíinu" og það væri þess virði að halda þeim sögum saman. Ég vil biðja menn, sem slíkar sögur kunna að hafa samband við mig. Það sama má raunar segja um marga fleiri Skagamenn, og væri gaman að fá sögur af þeim sem á einn eða annan hátt settu svip á Akranes.