Ragnar Sigurjónsson er hér við trommusettið á bak við Dúmbó og Steina, eins og gulyrjóttu hljómsveitarjakkafötin með svörtu boðungunum frá miðjum sjöunda áratugnum sýna. Myndin er tekin í hótelinu við Bárugötu. Ragnar var lengi talinn í hópi þriggja bestu trommuleikara landsins ásamt Pétri Östlund og Gunnari Jökli Hákonarsyni. Hann gekk til liðs við Dúmbó sextett aðeins 15 ára gamall (leysti Gunnar Sigurðsson af hólmi) og urðu af því nokkur vandræði um hríð fyrir þá þjóna laganna sem önnuðust gæslu á sveitaböllum þar sem aldurstakmark gesta var 16 ár. Seinna lék Ragnar með Mánum frá Selfossi, má m.a. heyra hann á öllum hljómplötum þeirra, og enn síðar m.a. með Brimkló. Ragnar fékk viðurnefnið „Gösli“ (jafnvel stundum „Göslarinn“) og heyrist það enn notað án þess að kappinn sé nefndur með réttu og fullu nafni. Það gerðist seinast í útvarpsþætti 17. júlí 2003.