Sementsbryggjan.

Ferjan II við sementsbryggjuna. Þarna er hún komin á seinasta snúning, ef svo má segja; orðin rækilega yfirbyggð og búin að fá tankana í lestina sem líta út eins og stórar melónur, eða jafnvel brjóst, eins og menn sögðu gjarnan á þessum tíma. Annars hlýtur saga þessarar fleytu að vera býsna merkileg, ef hún yrði tekin saman. Ferja þessi var innrásarprammi við Normandí 1944, keypt til Íslands eftir stríð til þess að ferja bíla yfir Hvalfjörð, lá síðan og ryðgaði á svotil þurru í Blautósi ásamt Ferju I í þó nokkur ár, en var svo dubbuð upp í sementsflutningaskip, fyrst nánast óbreytt þar sem sementið var flutt í pokum yfir flóann til Reykjavíkur, en þarna er farið að flytja sementið laust og því þurfti tanka. Annars var það alltaf dálítið sérstök sjón að sjá tvær aflóga ferjur / innrásarpramma sitja þegjandalegar í Blautósnum. Ferja I fór sennilega í brotajárn eftir veruna í Blautósi. Ferjurnar tvær voru keyptar til landsins að forgöngu Sigurðar Hallbjörnssonar, útgerðarmanns á Akranesi, og Odds bróður hans til að notast sem bílaferjur milli Hvaleyrar og Kataness. Enn má við Katanes sjá upphaf bryggjuframkvæmda í þessa veru. Við fráfall Sigurðar voru þessar áætlanir lagðar á hilluna, en ferjurnar notaðar við hafnaruppbyggingu á Akranesi. Þeim var á vetrum lagt við legufæri í Akraneshöfn, þar slitnuðu þær upp í SA stormi og ráku upp í Ívarshúsakletta, sú sem nær lenti landi, Ferja II skemmdist meira en svo að gert yrði við hana, henni var lagt í Blautós og síðan rifin. Ferja II var síðan notuð til ýmissa verkefna um hríð, meðal annars vinnuvélaflutninga við byggingu ratsjárstöðvar á Straumnesfjalli. Eftir að Sementsverksmiðjan tók til starfa var hún í sementsflutningum til Reykjavíkur þar til Skeiðfaxi var smíðaður, þá var henni lagt í Blautós og síðan rifin þar í brotajárn. Ferjurnar voru smíðaðar í Englandi 1943 og báru þar einkennin Lct (Landing Craft Tanks) 350 og 351. Þær voru í upphafi knúðar þremur 500 HA Paxman vélum hvor, sú síðari gekk fyrir tveim Caterpillar vélum undin lokin.

Nr: 4643 Ljósmyndari: Friðþjófur Helgason Tímabil: 1980-1989 frh00793