Grindvhalir í Halakotasfjöru

Klukkan að ganga 7 á fimmtudagsmorguninn vöknuðu menn á Akranesi við allsnarpan jarðskjálftakipp. Er þeir komu á fætur, sáu þeir nýstárlega sjón. Í flæðarmálinu við kauptúnið lágu 73 marsvín (grindahvalir), er höfðu hlaupið þar á land um nóttina. Ofsarok var framan af nóttu af suðaustri, og hafði enginn maður orðið var við, er skepnur þessar komu á land, nema hvað maður einn, Oddur Gíslason að nafni, sem á heima í húsi, er stendur mjög framarlega á fjörubakkanum, hafði heyrt blástur og buslugang um nóttina, þó eigi þó svo greinilega, að hann gæfi því gaum. Sögumaður Morgunblaðsins kom á vettvang kl. 7 um morguninn. Þá voru sum marsvínin dauð, en nokkur í fjörbrotunum og byltust til, í fjörunni. Jafnóðum og fólk kom á fætur, flykktist það niður í fjöruna, til þess að sjá öll þessi ósköp, sem þar voru á ferðinni. Þótti mönnum tákn og stórmerki fara saman, þar eð jarðskjálftinn vakti menn eins og til þess að þeir litu í kringum sig og sæju hvað um var að vera. Stærstu marsvínin eru rúmar 11 álnir á lengd, en meðalstærð er 6—8 álnir. Var síðan byrjað að bjarga skepnum þessum undan sjó, og voru flestar dregnar upp á fjörubakkann. En nokkrar voru bundnar í fjörunni og festar við bakkann. Um kvöldið var skotið á fundi til þess að ræða um, hvað gera skyldi við feng þennan og hvernig honum skyldi skifta. Varð það úr, að landeigendur afsöluðu sjer hlutdeild í feng þessum upp á þær spýtur, að hreppsfjelagið fengi hann óskiftan og yrði ágóðanum varið til hafnarbóta. Í gær kom Ólafur Björnsson útgerðarmaður hingað til bæjarins til þess að leita fyrir sjer með sölu á reka þessum. Hann fer heimleiðis aftur um hádegi í dag. Kjöt og spik af smáhvölum þessum mun vera nokkuð á annað hundraðsmál. Er kjötið talið afbragðsfæða, og hjer mun það vera eins gott og framast má verða, því að marsvínin voru blóðguð undir eins, og blæddi þeim út, því að flest eða öll voru lifandi, er fyrst var að komið. Í Færeyjum er það talin mesta guðsgjöf, þegar grindahlaup kemur. Er kjöt og spik eingöngu notað til manneldis og er dreift út um allar eyjar. Þykir kjötið herramannsmatur nýtt, sjerstaklega í „buff", en það sem Færeyingar torga ekki af kjötinu nýju, er saltað niður ásamt spikinu, og er hvorttveggja borðað saman og þykir ágætur matur, ekki aðeins þeim, sem honum eru vanir, heldur einnig þeim, sem bragða hann í fyrsta skifti. Heimild: Morgunblaðið, 274. árg. Bls. 3. 24. nóvember 1928.

Nr: 28371 Ljósmyndari: Árni Böðvarsson Tímabil: 1900-1929